Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Taktser Rinpoche látinn

Taktser RinpocheTaktser Rinpoche, elsti bróðir Dalai Lama lést 5. September í Bandaríkjunum. Hann spilaði stórt hlutverk í þeirri pólitísku þróun sem átti sér stað í kjölfar hernámsins á Tíbet og var einn af aðal samningamönnum Tíbeta í árdaga hernámsins.

Þegar hann var þriggja ára var hann viðurkenndur endurfæddur ábóti Kumbum klaustursins og var þegar í áhrifamikilli stöðu áður en bróðir hans fæddist og tók við þeirri stöðu að vera andlegur leiðtogi allrar þjóðarinnar.

Kínversk yfirvöld lofuðu Taktser Rinpoche stöðu ríkistjóra Tíbets ef hann myndi myrða bróður sinn. Taktser Rinpoche fór til Lhasa enn í stað þess að myrða Dalai Lama, sagði hann bróður sínum sannleikann og frá vantrausti sínu á gylliboðum kínverskra yfirvalda og hvatti hann til að flytja sig um set og hafa búsetu við Indversku landamærin. Stuttu síðar flúði Taktser Rinpoche Tíbet.

Taktser RinpocheÞó að Taktser Rinpoche væri dyggur fylgismaður Dalai Lama, þá hafði hann allt aðra skoðun en bróður sinn varðandi milliveg þann sem Dalai Lama ákvað að fylgja. Taktser Rinpoche var alla tíð ákveðinn í því að eina leiðin fyrir Tíbet væri fullt sjálfstæði.

Taktser Rinpoche varði lífi sínu að stórum hluta í að skrifa um Tíbet, bækur sem og akademísk rit, þar á meðal er bókin “Tibet is My Country”, Tíbet er land mitt, en hún var með fyrstu bókum sem fjölluðu um upplifun Tíbeta á þeim umbrotum sem áttu sér stað í landinu. Bókin var jafnframt sú fyrsta til að vera talin til mikilvægra fræðibókum í þessum málaflokki.

Hann starfaði sem prófessor í tíbeskum fræðum í háskólanum í Indiana í Bandaríkjunum og árið 1979 stofnaði hann í Indiana Tíbeska menningarmiðstöð.

Taktser Rinpoche og Dalai LamaAllt til hinstu stundar var Taktser Rinpoche óþreytandi málsvari mikilvægi þess að vernda og bjarga menningu Tíbeta. Hann stóð alltaf vörðinn fyrir því mikilvæga málefni að Tíbetar í Tíbet nytu mannréttinda. Á hverju ári, einnig í ágúst á þessu ári tók hann þátt í svokölluðum “Long walks” og hjólreiðum til að vekja athygli á ástandinu í Tíbet og hvað þjóð hans þarf að ganga í gegnum.

Taktser Rinpoche var 86 ára þegar hann lést. Blessuð sé minning hans.


Föst fundaraðstaða vina Tíbets

Vinum Tíbets hefur boðist kostatilboð um fasta fundaraðstöðu í kjallara Alþjóðahúss. Verið er að standsetja kjallarann svo hann verði hæfur til fundarhalds. Við vorum þarna dágóður hópur fólks frá öllum heimshornum og ýmsum félögum, að taka til og mála á föstudagskvöldið og vonandi tekst okkur að klára þetta næsta föstudag. Aðstaðan verður frábær fyrir svona lítil félög eins og okkar sem oft eru á hálfgerðum hrakhólum þegar verið er að byggja þau upp. Frábært að fá þessa aðstöðu. 

Annars þá er ég ákafur aðdáandi Alþjóðahúss og finnst það starf sem þar er unnið hið mesta þarfaþing, mætti jafnvel líkja því starfi sem hornsteini en margir gera sér ekki grein fyrir hve mikilvægur hann er. Hef fylgst með starfsemi Alþjóðahúss frá upphafi og veit hvað það skiptir miklu fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu okkar. Ég hef svo oft búið erlendis og veit hvað það getur verið snúið að læra á samfélagið í kringum mig ef engin aðstoð er í boði.

Fáni TíbetÁ næstu dögum mun ég setja inn fleiri fastar síður með fræðsluefni er tengist Tíbet, var að setja inn grein um fána Tíbets og hvet ykkur til að lesa hana. Ótrúlega falleg hugsun sem liggur að baki fánans. 

Einn félagi hefur verið öðrum duglegri að þýða greinar og kann ég henni bestu þakkir fyrir það:)

Með björtum kveðjum

Birgitta


Dalai Lama mun leiða föstu fyrir friði og frelsi

Dalai LamaÁ morgunn laugardag hefst fasta fyrir friði og frelsi víðsvegar um heim- í gær var tvísýnt hvort að Dalai Lama gæti tekið þátt. Enn hann var lagður inn á spítala vegna verkja í kviði. Í morgunn var komin yfirlýsing frá honum þess efnis að honum liði miklu betur og mun leiða föstuna.

Hvet alla sem hafa trú á að friður og frelsi sé eitthvað sem skiptir þá máli að taka þátt þó ekki væri nema með því að eyða smástund á laugardaginn til að opna hjarta sitt:)

Við munum fasta frá 9 til 21 og ef fólk hefur áhuga á að taka þátt í bænahugleiðslustund með okkur hafið samband info@tibet.is og við látum ykkur vita hvar það verður. Það veltur alfarið á hve margir ætla að mæta:) en hugmyndin er að hittast klukkan 14 eftir hina vikulegu mótmælastöðu fyrir utan sendiráðið kínverska.

 

Long Life Prayer
for
His Holiness Tenzin Gyatso, the XIV Dalai Lama

For this realm encircled by snow covered mountains
you are the source of every benefit and bliss without exception
Tenzin Gyatso, you who are one with Avalokiteshvara:
may you remain steadfast until samsara's end !
 


Kerti fyrir Tíbet

Kerti fyrir Tíbet
Laugardagskvöldið 23. ágúst klukkan 21:00 taka vinir Tíbets þátt í alþjóðaaðgerðum til að sýna fram á að heimsbyggðin hefur EKKI gleymt Tíbet, þó kínversk yfirvöld hafi gert sitt besta til að hindra aðgang að upplýsingum um ástand mála þar. Kveikt verður á kertum fyrir utan kínversk sendiráð um allan heim, en 215 sendiráð hafa nú þegar verið staðfest sem samkomustaðir. 

Vinir Tíbets ætla að tendra kerti til að minnast þeirra sem þjást í Tíbet en samkvæmt fréttum hefur landinu verið haldið í herkví á meðan á Ólympíuleikunum stendur og eru stór svæði Tíbets eins og fangelsi. Milljónir manna um heim allan tendra kerti á sama tíma, hvort heldur er heima hjá sér, meðal vina eða fyrir utan sendiráð. Hvetjum alla sem láta mannréttindi sig varða að mæta og taka þátt í kertastundinni með okkur. Nánari upplýsingar á candle4tibet.org.

Myndband sem vinir Tíbets settu saman eftir síðustu ljósahátíð var sérstaklega valið fyrir aðalsíðu Candle for Tibet Social Network. Í þeirri aðgerð tóku tugir milljóna þátt og von er á álíka mörgum þátttakendum núna. Dalai Lama hefur lagt blessun sína yfir þessa alþjóðlegu aðgerð og the Art for Peace Foundation hefur jafnframt stutt hana með því að gefa skipuleggjendum kertaaðgerða aðgang að tónlistinni af Songs for Tibet án endurgjalds, en fjölmargir heimsfrægir tónlistarmenn hafa gefið vinnu sína til að styrkja baráttu Tíbeta til að fá um mál sín fjallað á alþjóðavettvangi. 

40 íþróttamenn sem taka þátt í Ólympíuleikunum hafa sótt sér tónlistina af disknum til að sýna í verki samstöðu með Tíbetum. Nú hafa kínversk yfirvöld fengið iTunes til að taka þátt í umdeildri aðgerð með því að loka fyrir aðgang að tónlistinni af Songs for Tibet úr netverslun iTunes ef þú ert staddur í Kína.

Opinberað hefur verið að í lokaathöfn Ólympíuleikana verði ópera sem fjallar um hve dásamlegt lífið er í Tíbet eftir hernámið og því varla hægt að tala um að ekki sé verið að nota íþróttavettvang til pólitískra aðgerða. Vinir Tíbets hvetja forseta Íslands til að taka upp málefni Tíbets við forseta Kína þegar þeir hittast á föstudaginn 22. ágúst.
 
 
Myndband frá "Kerti fyrir Tíbet" sem haldið var á Lækjartorgi 7. ágúst 
 

Raddir fyrir Tíbet

Raddir fyrir Tíbet

Þann 24.ágúst klukkan 20:00 næstkomandi standa vinir Tíbets fyrir viðburði til að styrkja flóttamannamiðstöð sem rekin er í Dharamsala. Listamenn af ýmsum toga munu troða upp í þeim tilgangi.

KK, Jónas Sig, Svavar Knútur, Páll Óskar & Monica og Jón Tryggvi munu ljá málefninu rödd sína sem og Ögmundur Jónason, Birgitta Jónsdóttir og Tsewang Namgyal munu halda stutt erindi um Tíbet. Harpa Rut Harðardóttir mun sýna ljósmyndir sem hún tók á ferðalagi sínu nýverið í Tíbet í anddyri Salarins og verða myndirnar til sölu og mun andvirði þeirra renna í styrktarsjóðinn.

Í Dharamsala á Indlandi er rekin flóttamannamiðstöð sem tekur við um 3000 flóttamönnum sem flýja Tíbet ár hvert. Mikil aukning hefur verið í flótta frá landinu undanfarin ár. Flóttinn tekur um fimm vikur yfir hæstu fjallaskörð í heimi og leggur fólk sig í lífshættu til að öðlast frelsi til að stunda sína menningu og fá tækifæri til að rækta tungumálið sitt. Þriðjungur allra flóttamanna eru börn sem leggja í 90% tilfella ein í þessa för til frelsis.  Þau börn sem lifa af flóttann missa oftast tær og putta út af frostbitum.

Allur ágóði af menningarveislunni Raddir fyrir Tíbet rennur til flóttamannamiðstöðvarinnar og gefa allir listamennirnir vinnu sína.
 
Raddir fyrir Tíbet er haldin sama dag og lokahátíð Ólympíuleikana fer fram. Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að tryggja að rödd Tíbets gleymist ekki í hinu daglega amstri.
 
Miðar fást hjá Salnum og á midi.is 

Ljósahátíðin á Íslandi vekur athygli erlendis

Kerti fyrir Tíbet

Fékk skeyti frá David Califa upphafsmanni að hinu alþjóðlega átaki Candle4Tibet þar sem hann lofaði mjög myndbandið sem ég skeytti saman frá ljósahátíðinni okkar í Reykjavík þann 7. ágúst og sagðist hann hafa skellt henni á forsíðu candle4tibet.ning.com. Gaman af því. Þetta var yndisleg stund og ég vona að sem flestir láti sjá sig þann 23. ágúst klukkan 21:00 fyrir utan kínverska sendiráðið. 

Næsta aðgerð sem við munum gera í samstarfi við Candle4Tibet mun eiga sér stað Laugardagskvöldið 23. ágúst, klukkan 21:00, kvöldið fyrir lok Ólympíuleikana í Peking

Með þessari aðgerð munum við láta heiminn vita af því að við höfum EKKI gleymt Tíbet

Kveiktu á kerti heima hjá þér, með vinum eða með okkur fyrir utan kínverska sendiráðið 

Markmiðið er að kveikja á kerti fyrir utan öll kínversk sendiráð í heiminum

Ekki gleyma að skrá þátttöku ykkar á
candle4tibet.org og jafnframt hvetja vini og vandamenn til að vera með

Með friðarkveðju

Vinir Tíbets 


Kerti fyrir Tíbet 23. ágúst

Fann þetta myndband sem var gert til að kynna kerti fyrir tíbet þann 7unda ágúst 
 

Breskur blaðamaður handtekinn

 

John Ray frá Independent Television News var handtekinn og ásakaður um að ætla að veifa fána Tíbeta þegar hann reyndi að fjalla um Free Tibet mótmæli í Peking í dag.

John var dreginn eftir götunni og ýtt inn í lögreglubíl og ekki leyft að draga upp blaðamannaskírteini sitt til að sanna mál sitt um að hann væri aðeins að fjalla um málið en ekki taka þátt í að mótmæla einu né neinu. Yfirvöld tóku ljósmyndavél hans og aðra hluti er tengjast starfi hans sem og tóku af honum skóna og mynduðu hann í bak og fyrir á meðan hann var yfirheyrðum um afstöðu sýna gagnvart Tíbet.

Þetta er fyrsta augljósa dæmið um að loforð þau um að leyfa fjölmiðlafólki að fjalla um það sem þeim finnst þess virði að fjalla um er rofið. Hvorki kínversk yfirvöld né IOC hafa enn tjáð sig um málið. 

Atvikið átti sér stað þegar átta aðgerðarsinnar frá  Students for a Free Tibet reyndu að breiða úr fána á lítilli bryggju í garði er kenndur er við þjóðernisminnihluta. Garðurinn er frekar stutt frá hreiðurs leikvanginum. Hópur frá nokkrum alþjóðafréttastofum reyndu að komast inn í garðinn til að taka upp aðgerðina, John tókst ekki að halda hópinn og var stoppaður af garðvörðum og í kjölfarið handtekinn af fimm lögreglumönnum sem meðhöndluðu hann eins og gjarnan tíðkast í Kína: ómannúðlega.

Annars þá má segja að segja að stúlkan með fallegu röddina hafi verið falin vegna þess að hún þótti ekki nógu falleg og afstöðu yfirvalda um hve réttlætanlegt það sé - minni um margt á lygarnar varðandi Tíbet. Hvenær ætlar fólk að gera sér almennilega grein fyrir að allt sem kínversk yfirvöld segja um trúarfrelsi í Tíbet og velferð Tíbeta eftir að landið var hernumið eru lygar.  



mbl.is Allt í plati í Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 staðreyndir um Tíbet

Eyðilögð veggmynd

1. Innrásin í Tíbet hófst 1949. Hernám Kína á Tíbet hefur kostað yfir 1.000.000 Tíbeta lífið, meira en 6.000 klaustur og hof hafa verið eyðilögð og þúsundir Tíbeta hafa verið fangelsaðir og pyntaðir.

 

2. Dalai Lama, pólitískur og trúarlegur leiðtogi landsins, flúði Tíbet árið 1959 til Dharamsala í Indlandi, og í kjölfarið fylgdu í kringum 100.000 Tíbetar og stofnuð var ríkisstjórn Tíbets í útlegð.  Árið 1989 voru Dalai lama veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir að víkja aldrei frá friðsamlegri stefnu sinni í frelsisbaráttu Tíbets.

 

3. Fyrir hernámið var Tíbet einveldi með fullgildri ríkisstjórn, með sinn eigin gjaldeyri, póstkerfi, tungumál, lagakerfi og menningu. Fyrir árið 1950, skrifaði Tíbet undir alþjóðlega samninga á sama hátt og önnur lönd heimsins. Ríkisstjórn Kína heldur því fram að Tíbet hafi alltaf verið hluti af Kína, en þrátt fyrir það ber hernámið á Tíbet einkenni ofbeldisfullrar nýlendustefnu, á borð við þær sem Kína hefur oft sakað aðrar stórþjóðir um að framfylgja.

 

4. Það sem kínverska ríkisstjórnin kallar “Sjálfstjórnarhéraðið Tíbet”, er ekki Tíbet og enn síður er sjálfstjórn þar.  Það landsvæði sem Tíbetar álíta vera Tíbet, skipti ríkisstjórn Kína niður í ólík héröð og sýslur og er “Sjálfsstjórnarhéraðið Tíbet” eitt þeirra og nær aðeins yfir mið- og austurhluta Tíbets.

 

5. Grundvallar mannréttindi, svo sem málfrelsi, trúarfrelsi og samkomufrelsi eru verulega skert og handahófskenndar órökstuddar handtökur viðgangast.  Í dag eru hundruðir pólitískra fanga í Tíbet og algengt er að þeir þurfi sífellt að þola pyntingar.

 

6. Ríkisstjórn Kína hefur í auknu mæli hvatt Han Kínverja (sem eru fjölmennastir í landinu) til að flytjast búferlum til Tíbet, og geta því fylgt bæði hærri laun og ýmis hlunnindi. Þessi stefna hefur ógnað mjög afkomu Tíbeta.  Tíbetar eru á hraðri leið með að verða minnihlutahópur í “Sjálfsstjórnarhéraðinu Tíbet”. Árlega flýja að auki þúsundir Tíbeta úr landi með því að fara fótgangandi hina lífshættulegu leið yfir Himalayafjallgarðinn til að leita frelsis.

 

7. Hið sögulega landsvæði Tíbet var afar víðfeðmt, með landsvæði sem gróflega jafnast á við vestur-Evrópu að stærð. Í Tíbet eiga fimm af stærstu fljótum Asíu upptök sín, sem sjá í kringum 2 milljörðum manns fyrir vatni.  Viðkvæmt lífríki Tíbets er í hættu vegna yfirgripsmiklar málmgrýtisvinnslu úr yfirborðsnámum í eigu Kínverja, vegna kjarnorkutilrauna þeirra í landi og gífurlegs skógarhöggs.

 

8. Ríkisstjórn Kína heldur því fram að tekist hafi að “þróa” Tíbet, en “þróunin” hefur að mestu gagnast aðfluttum Kínverjum, ekki Tíbetum.  Mennta- og heilbrigðiskerfin hafa verið vanrækt en milljónum dollara hefur verið varið í uppbyggingu á samgöngum, byggingum og orkuverum sem þjónusta mikilfenglega hervæðingu landsins og hafa gert Tíbet að lögregluríki.

 

9. Ríkisstjórn Kína hefur lagt mikla áherslu á að selja erlendum fjárfestum aðgang að auðlindum Tíbets, og í því skyni hert stjórnun sína á svæðinu.  Hefur stjórnin sett upp herferðir á borð við þá sem þeir kalla “Go West” til að laða að erlenda fjárfesta. Erlendar fjárfestingar á kínverskum fyrirtækum og þau verkefni sem arðræna Tíbet verða aðeins til þess að réttlæta nýlendustefnuna í Tíbet.

 

10. Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamfélagið hafa gert afar lítið til þess að sporna við ólöglegu hernámi Kínverja á Tíbet.  Kínverskur markaður er gífurlega stór og býr yfir ódýru vinnuafli, og samstarfs- og viðskiptaaðilar hafa það mikil áhrif að stjórnsýsluaðilar flestra landa heimsins eru tregir til að leggja nokkuð markvert til málanna. Síðan flest vesturlönd tóku upp svokallað “uppbyggilegt samband” við Kína á tíunda áratugnum, hefur ástandið í mannréttindamálum Tíbeta aðeins versnað.

 

 


Frábær aðgerð

Þetta finnst mér flott aðgerð og sýna sannan íþróttaanda. Það ætti nefnilega ekki að vera þannig í heimi okkar að íþróttaandinn nái ekki útfyrir íþróttirnar. Varla eru þær handan þess mannlega. Eru þær ekki einmitt markaðssettar sem táknmynd fyrir að hugurinn er ofar hinu efnislega?  

Mikið hefði nú verið gaman ef okkar ráðamenn hefði þorað að gera eitthvað annað en að sötra kampavík í fyrirmannstúku og láta mannréttindabrotin í Kína og Tíbet sem vind um eyru þjóða... 

Manni var nánast ómótt af fagurgalanum í Ólympíuheftinu sem kom út í gær. Mér finnst að allir ættu að minnast þeirra fórna sem fólkið í Peking hefur verið þvingað til að færa, að ógleymdum bændunum sem fá ekkert vatn á akra sína vegna þess að vatninu þeirra er beint á Ólympíuþorpið. 

Minni svo á Kerti fyrir Tíbet í kvöld klukkan 21 á Lækjartorgi, heima hjá þér eða í vinnunni. Nánar á candle4tibet.org 


mbl.is Fánaberi Bandaríkjanna frá Darfúr héraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Félag

Vinir Tíbets
Vinir Tíbets
Markmið félagsins er að efla menningarleg tengls á milli Íslendinga og Tíbeta. Hafið samband: birgitta@this.is
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband