Leita í fréttum mbl.is

Óttinn í Lhasa

eftir tíbesku skáldkonuna Woeser

Lhasa kvödd í skyndi. Nú borg óttans.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar er óttinn magnaðri en ef óttanum eftir 1959, 1969 og 1989 væri spyrnt saman.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn býr í andardrætti þínum, í hjartslættinum. Í þögninni, þegar þér langar til að tjá þig en gerir það ekki. Röddin föst í hálsinum.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem síbylja óttans rennur undan rifjum hersveita með vélbyssur. Frá mergð lögreglumanna með byssurnar mundaðar. Frá óteljandi óeinkennisklæddum njósnurum og enn bætir í óttann með risavaxinni vél ríkisvaldsins sem gnæfir yfir þeim, nótt sem nýtan dag. En þú mátt ekki beina myndavél að þeim, þá beinist byssa að þér, þú kannski dreginn inn í skuggann og enginn mun nokkru sinni vita af því.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn í Potala magnast eftir því sem þú ferð lengra í austur, þar sem Tíbetarnir búa. Kvíðvænleg skóhljóð bergmála allsstaðar, en í dagsbirtunni nærðu ekki einu sinni að sjá skugga þeirra. Þeir eru eins og ósýnilegir djöflar á daginn, en hryllilegur óttinn við þá er verstur, þess megnugur að láta þig missa vitið. Ég hef gengið fram hjá þeim, fundið kuldann frá vopnunum í höndum þeirra.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn er grandskoðaður öllum stundum með upptökutækjum og myndavélaaugum á hverju götuhorni, húsasundi og skrifstofu, í öllum klaustrum og musterissölum; allar þessar myndavélar, soga allt í sig. Snúast frá ytri heiminum og þvinga sér inn í huga þinn. “Zap zap jé! – Þeir eru að fylgjast með okkur.” — meðal Tíbeta, fornt máltæki með nýrri merkingu, hvíslað hljóðlega manna á milli.

Lhasa kvödd í skyndi. Ég er harmi slegin vegna óttans í Lhasa. Verð að skrifa um það.

23. ágúst 2008
Á leiðinni frá Lhasa


[Ég var í Lhasa frá 17. ágúst til 23. ágúst 2008. Stysta heimsókn mín til þessa og ég var nauðbeygð til að fara… þessi orð eru skrifuð svo ég gleymi ekki hvað gerðist þar. Það er eitt sem ég verð að segja við kínversk yfirvöld: Þú hefur byssur. Ég hef penna.]

Woeser var handtekinn meðan hún var í Lhasa en var svo lánsöm að vera sleppt.

WoeserUm höfundinn:

(Tsering) Woeser fæddist í Lhasa árið 1966. Hún er dóttir yfirhershöfðingja í kínverska frelsishernum. Þegar hún var fjögurra ára flutti fjölskylda hennar til Kardze, Sichuan. Þar stundaði hún bókmenntanám sem allt fór fram á kínversku. Hún vann í tvö ár sem blaðamaður áður en hún flutti til Lhasa árið 1990. Þar hóf hún störf sem ritstjóri fyrir tímaritið Tíbeskar bókmenntir. Fyrsta ljóðabók hennar Xizang zai shang kom út árið 1999. Vegna þess að hróður hennar óx óðum í bókmenntaheimum, var henni gefinn kostur á að hefja nám við Lu Xun stofnunina í Peking.

Árið 2003 kom út eftir hana safn ritgerða þar sem hún var ekkert að skafa utan af hlutunum, safnið fékk heitið; Notes from Tibet, bókin var bönnuð opinberlega vegna “pólitískra rangfærslna”. Í kjölfarið missti hún vinnuna sína sem ritstjóri og þurfti að flytja alfarið til Peking, þar sem hún hélt áfram að skrifa og fékk nokkrar bækur útgefnar í Taívan, ber þar helst að nefna bókina Forbidden Memory, en hún fjallar um kínversku "menningarbyltinguna" í Tíbet og prýða bókina jafnframt ljósmyndir sem faðir hennar tók á meðan á "menningarbyltingin" stóð yfir. Árið 2006, þegar lokað var fyrir bloggin hennar af yfirvöldum, hóf hún að blogga á erlendum netþjóni. Eftir óeirðirnar og mótmælin í mars á þessu ári hafa kínversk stjórnvöld lokað Tíbet sem og lokað fyrir allar upplýsingar um ástandið þar, þar á meðal hefur verið lokað fyrir bloggið hennar, þannig að Kínverjar hafa ekki haft aðgang að skrifum hennar. Bloggið hennar varð fyrir síendurteknum árásum hakkara og varð fyrir vikið ónothæft, en hægt er að finna athugsemdir og skýringar um ástandið í Tíbet á ensku á vefsvæði China Digital Times.

Árið 2007 hlaut Woeser verðlaun frá norska rithöfundasambandinu, verðlaun til heiðurs tjáningarfrelsi. Hún býr í Peking með eiginmanni sínum Wang Lixiong. Hún hefur ekki frelsi til að ferðast til annarra landa.

Þýðingin er byggð á enskri þýðingu Andrew Clark á ljóði Woeser frá kínversku. Hægt er að lesa ljóðið í þýðingu Andrews á Ragged Banner. Hægt er að finna fleiri ljóð eftir hana á þessum vef, en því miður hafa afar fá verka hennar verið þýtt á ensku, nema ljóðabókin Tibet´s True Heart sem Andrew Clark þýddi. Hægt er að finna nokkur ljóð á vefnum Ragged Banner úr þessari mögnuðu bók.

Með björtum kveðjum
Birgitta

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Félag

Vinir Tíbets
Vinir Tíbets
Markmið félagsins er að efla menningarleg tengls á milli Íslendinga og Tíbeta. Hafið samband: birgitta@this.is
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 1036

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband