Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tíbet á krossgötum

Staða samræðna milli Dalai Lama og ríkistjórnar kínverska alþýðulýðveldisins.
„Ein stjórn fyrir Tíbetbúa“: Brot úr ræðu sem Lodi Gyaltsen Gyari, sérlegur sendifulltrúi Dalai Lama, flutti við Harvardháskólann þann 8. október 2008.

Lodi Gyaltsen Gyari„Í dag býr minna en helmingur Tíbeta á tíbetska sjálfstjórnarsvæðinu. Hinir búa í tíbetskum sjálfstjórnarsýslum og héröðum í Qinghai, Gansu, Sichuan og Yunnan umdæmunum. Allir Tíbetar sem búa á þessum stöðum tala sama tungumál og rækta sömu menningu og hefðir. Rétt eins og Kína vill gera eina þjóð úr mörgum ólík umdæmum, þá þrá Tíbetar líka að vera undir einni stjórn þannig að auðveldara verði að viðhalda þeirra lífsmynstri, hefðum og trú á skilvirkan og friðsaman hátt.
Sagan hefur sýnt að skipting svæðis einnar þjóðar í margar stjórnunareiningar hefur orðið til þess að sérstakt einkenni þjóðarinnar, ásamt getu hennar til að vaxa og dafna, veikist og tærist. Þetta getur einnig hindrað, eða jafnvel grafið undan, friði, stöðugleika og þróun þjóðar.  Slíkar aðstæður eru í mótsögn við það markmið, sem liggur að baki stofnunar kínverska alþýðulýðveldisins, að öll þjóðerni séu jafnrétthá. Til að þeir þrífist má ekki halda Tíbetum aðskildum, heldur skal veita þeim það jafnrétti og þá virðingu sem sæmir sérstakri þjóð.

Kínverjar halda því fram að sjálfstjórnarsvæði Tíbeta samsvari fyrrverandi ríkisstjórn þeirra.  Þar með vilja þeir meina að sú krafa að allir Tíbetar þurfi nú að búa við eina sameiginlega stjórn sé ósanngjörn.  Þessi spurning endar alltaf á sögulegri þrætu um lagalega stöðu Tíbeta undir tíbetsku ríkistjórninni, og sú þræta kemur í veg fyrir að grundvöllur sameiginlegrar framtíðar finnist.  Kínverska ríkisstjórnin hefur endurteiknað innri landamæri eftir hentugleika, og myndi auðveldlega getað það fyrir Tíbet til að tryggja stöðugleika og varðveislu séreinkenna þess.  Áherslan hér getur ekki verið á skiptingu landsvæða, heldur hvernig best er hægt að efla menningu og lífsmynstur Tíbetbúa.

47672882_accb73d4f4_o.jpgKínverska hliðin heldur að við séum að krefjast þess að einn fjórði hluti landflæmis alþýðulýðveldisins verðin skilinn frá öðrum hlutum. Í fyrsta lagi, þá eru slíkar áhyggjur óþarfar þar sem Tíbetar eru ekki að biðja um aðskilnað Tíbets frá Kína.  En önnur og jafnvel mikilvægari er sú staðreynd að landsvæði það sem byggt er Tíbetum er um það bil einn fjórði af landflæmi alþýðulýðveldisins engu að síður, og að kínverska ríkisstjórnin hefur nú þegar skilgreint nær öll tíbetsk svæði sem sjálfstjórnarsvæði: „Tíbetska Sjálfstjórnarsvæðið“, „Tíbetsku Sjálfstjórnarhéröðin“ og „Tíbetsku Sjálfstjórnarsýslurnar“.  Þess vegna er staða okkar hvað varðar skilgreininguna á landinu Tíbet ekki það ósamræmanleg.
Ekki ætti að líta á það að koma á einni stjórn fyrir Tíbetbúa sem tilraun til að stofna „stóra“ Tíbet, eða sem einhverskonar samsæri aðskilnaðarsinna.  Þetta er spurning um að viðurkenna, endurskapa og virða  heildstæðni Tíbeta sem þjóðernis innan kínverska alþýðulýðveldisins.  Þetta er ekki einhver ný eða róttæk hugmynd.  Frá upphafi hafa Tíbetar haft orð á þessu og fulltrúar kínversku ríkisstjórnarinnar hafa viðurkennt þetta sem nokkuð sem þarft er að taka á.  Það er jafnvel tilfellið að þegar 17 liða samþykktin var undirrituð 1951, viðurkenndi Premier Zhou Enlai að hugmyndin um sameiningu tíbetska þjóðernisins væri viðeigandi.  Á svipuðum nótum, þá sagði Premier Chen Yi árið 1956 þegar hann var í Lhasaa að það væri gott fyrir þróun Tíbets, og fyrir vinsamlegt samband Tíbeta og Kínverja, að láta í framtíðinni tíbetska sjálfstjórnarsvæðið ná yfir öll þjóðsvæði Tíbeta, þar með talin þau sem eru í öðrum umdæmum.

Tíbetar berjast fyrir rétti sínum sem þjóð til að vernda sérstöðu sína með sameinaðri stjórn. Þetta myndi auðvelda Tíbetum að vera hluti af kínverska alþýðulýðveldinu þar sem þetta myndi tákna virðingu fyrir heildstæðni þeirra og sérstöðu.

Kínverskir ráðamenn vita mjög vel að þessi þrá Tíbeta er ekki aðeins tjáð af hinum heilaga Dalai Lama og Tíbetum í útlegð, heldur einni af Tíbetum í Tíbet, þar með töldum háttsettum félögum kommúnistaflokksins.  Þetta kom berlega í ljós fyrr á þessu ári þegar Tíbetar út um alla tíbetsku hásléttuna sýndu fyrirvaralaust hvaða tilfinningar þeir báru til kínverskra stefnumála. Þessi þróun sýndi mikla þörf á allsherjarlausn þeirra mála sem snúa að Tíbetum öllum.“ (þýð. HHV)
Alla ræðuna á ensku má finna hér:



Snarpur jarðskjálfti í Tíbet

Á mánudaginn þegar innviðir bankakerfisins hrundu hérlendis, fór lítið fyrir fréttum af snörpum jarðskjálfta í Tíbet. En hann var upp á 6.6 á Richter skalanum. Hús hrundu eins og spilaborgir, fólk dó og slasaðist. Tölurnar eru enn á reiki um mannfall en í það minnsta hafa 10 manneskjur látist og 40 slasast.

Hér eru nokkrar myndir sem ég fann á kínverskum fréttavef af skjálftasvæðinu.

 

xin_382100507034928109561.jpg

 

 

xin_2421005070758000110032.jpg
 
xin_232100507075879626381.jpg

 


Ný stjórn og sitthvað fleira

Á aðalfundi var kjörin ný stjórn: Birgitta Jónsdóttir, formaður, Halldóra ritari, Deepa Lyengar, gjaldkeri. Meðstjórnendur: Tsewang Namgyal, Tenzin Khechok, Hannes Högni Vilhjálmsson, Katrín Björk Kristinsdóttir og Harpa Rut Harðardóttir.

Á fundinum var samþykkt að taka upp árgjald sem mun verða 1.500. Þeir sem ekki treysta sér til að greiða þetta árgjald verða að sjálfsögðu jafngildir meðlimir og aðrir. Nánari upplýsingar um útfærslu á þessu síðar:)

Ýmsar hugmyndir voru reifaðar um hvernig við gætum aflað fjár til að styrkja bæði viðburði á vegum félagins sem og til að senda til móttökustöð flóttamanna í Dharamsala. Þar má nefna, bingó, fjáröflunarkvöldverð með indversku og tíbesku ívafi, ljósmyndasýningu og sitthvað fleira. Ef einhver hefur fleiri hugmyndir, endilega deilið þeim með okkur og við munum gera okkar besta til að hrinda því í framkvæmd.

Í október fer ritari félagsins til Dharamsala í einkaerindum og mun hún og maðurinn hennar afhenda peninga fyrir okkar hönd, en okkur tókst að safna um 116.000 fyrir móttökustöð flóttamanna. Vil þakka ykkur sem lögðu þessari söfnum lið. Yndislegt hvað það er til mikið af fólki með stórt hjarta og fórnfýsi fyrir þá sem þjást í heiminum okkar.

Minni á að við munum ekki standa fyrir mótmælum á hverjum laugardegi fyrir utan kínverska sendiráðið. Ætlaði að afhenda sendiherra bréf og beiðni um fund en komst að því að þar var allt lok lok og læs vegna þjóðhátíðar þeirra frá því á miðvikudag... Læt bréfið flakka á póstlistann og hvenær ég mun afhenda þetta opinbera bréf fyrir hönd félagsins.

Aðalfundur Vina Tíbets

Næstkomandi sunnudag klukkan 17:00 munu Vinir Tíbets halda aðalfund í húsakynnum Alþjóðahúss að Laugavegi 37. Vegna vankanta í framkvæmd á stofnfundi hefur reynst ómögulegt að skrá félagið formlega, þá hafa flestir sem kosnir voru í stjórn helst úr lestinni vegna anna.
Við viljum því endurkjósa stjórnina og stofna félagið á þann hátt að auðvelt reynist að ganga frá umsókninni til skattayfirvalda.

Fjölmörg og spennandi verkefni eru framundan. Það væri einnig gaman að fá fleiri hugmyndir um hvað við getum gert til að styrkja markmið félagsins: þ.e.a.s. að styrkja menningarleg tengsl á milli Íslands og Tíbets.

Hvet alla þá sem hafa áhuga á Tíbet, magnaðri menningu þeirra (sem er að deyja út), Dalai Lama, Búddhisma eða mannréttindum að koma og vera með í þessu frábæra félagi sem hefur áorkað ótrúlega miklu þó enn telji það aðeins 100 félagsmenn.

Með björtum kveðjum
Birgitta


Mengun í Tíbet

TíbetKínversk yfirvöld hafa ákveðið að leggja nokkra milljarða dollara í frekari álvers, báxítnámur og annan námugröft í Tíbet. Nú þegar er búið að höggva niður nánast alla gömlu skógana í Austur-Tíbet, en þeir voru gríðarlega stórir og fornir. Talið er að ein af ástæðum hinna miklu flóða á láglendinu megi rekja til skógarlausra fjallshlíða í Austur-Tíbet.

Þeir ætla að skapa um 17.000 ný störf sem verða flest mönnuð Han-kínverjum. Vekur þessi ákvörðun enn meira vonleysi meðal útlægra Tíbet um að fá tækifæri á að snúa aftur heim og ótta um að menning þeirra muni með öllu glatast. Það er mikilvægt að fólk hafi í huga að nú þegar eru Tíbetar í minnihluta í sínu eigin landi.

Umhverfisverndarsinnar eða umhverfisvísindamenn hafa ekki aðgang að Tíbet til að meta ástandið, en vitað er að landið hefur meðal annars verið notað fyrir kjarnorkuúrgang og feikilega stórar báxítnámur eru í grennd við Lhasa. Það lítur út fyrir að það eigi að gera við Tíbet eins og var gert við héraðið Orissa á Indlandi- það er nánast ekkert hreint vatn eftir þar og mikið samansafn stóriðju, sér í lagi álvera og báxítnáma.

Fann eina áhugaverða grein um mengun í vatni í Tíbet: http://www.futurewater.nl/uk/projects/tibet

Markmið Vina Tíbets er að afla upplýsinga og setja upp eins konar bókasafn með tíð og tíma sem og eilítið safn heimildamynda og kvikmynda er tengjast Tíbet. Hægt er að kíkja á nokkrar nýjar myndir í slóðasafninu hér til vinstri. 

Ef einhver hefur vitneskju um bækur, rit, kvikmyndir sem taka sérstaklega á umhverfismálum í Tíbet, þá endilega látið okkur vita.


Enn mótmælt

Vinir TíbetsTil hvers mætum við fyrir utan kínverska sendiráðið á hverjum laugardegi?

1. Sendiherranum er skylt að senda skýrslu til sinna yfirmanna í Kína ef mótmælt er fyrir utan sendiráðið. Með því að mótmæla fyrir utan sendiráðið erum við að senda skilaboð beint til Kína um að við líðum ekki þau mannréttindabrot sem framin eru í Tíbet.

2. Tíbet er enn lokað. Engir frjálsir fjölmiðlar hafa aðgang að landinu. Í þessari miklu þögn þrífast handtökur og morð, kúgun og pyntingar. Við viljum sýna yfirvöldum í Kína að við höfum ekki gleymt Tíbet. Við viljum hvetja samlanda okkar til að gera eitthvað til að sýna þessari kúguðu þjóð stuðning. Þeim sem er nóg boðið er frjálst að mæta, hitta annað fólk sem lætur sig annt um Tíbeta og þeirra ánauð.

3. Við viljum sýna Tíbetum í Tíbet sem og þeim sem þurft hafa að flýja landið stuðning í verki. Hægt og bítandi er félagið að stofna til tengsla við önnur félög útlaga og Tíbetvina víðsvegar um heim. Það er mikilvægt fyrir Tíbeta að heyra af stuðning þó hann sé ekki stór í sniðum. 

4. Við mætum þarna til að deila fréttum og varpa fram hugmyndum um hvað við getum gert, bæði sem einstaklingar og hópur til að vekja athygli á Tíbet.

Nú höfum við mætt fyrir utan sendiráðið samtals 28 sinnum, munum gera eitthvað sérdeilis sérstakt þegar við tökum þrítugustu vaktina. Allar hugmyndir vel þegnar.


Þögnin frá Tíbet

tibetreport5.jpgÞað ríkir þögn um Tíbet, í fjölmiðlum. Því ríkir þögn meðal almennings. Á meðan er verið að murka lífið úr friðsömustu þjóð í heimi. Það eru svo sem engar nýjar fréttir, kínversk yfirvöld hafa komist upp með það í 60 ár. Það sem eru nýjar fréttir er að kínversk yfirvöld hafa ákveðið að leggja gríðarlegt fjármagn í uppbyggingu á álverum og báxítnámum, sem og fleiri skyld verkefni til næstu ára. Áætlunin er að búa til 16.800 ný störf í Tíbet. Þeir sem þekkja til í Tíbet vita að þessi störf eru áætluð fyrir enn frekari landnema af kínversku bergi brotnu.

Það er sjaldgæft að maður heyri fréttir frá Tíbet, það er sjaldgæft að blaðamenn leggist í rannsóknarvinnu og skrifi heilsteyptar greinar um hvað er að gerast þar núna. Þó er auðvelt að nálgast fréttir sem fólk leggur sig í lífshættu að afla. En það eru ekki stóru fréttaveiturnar sem veita þessar fréttir, því landið er lokað og engir alþjóða fréttamiðlar sem geta veitt fréttir. Því eru einu fréttirnar sem við fáum frá flóttafólki eða þeim sem smygla sér inn í landið og lenda oft í fangelsi fyrir vikið. 

Það er sorglegt til þess að vita að við sem þjóð kynnum okkur ekki betur það sem er að gerast í Tíbet, því við erum jú eina ríkið í Evrópu sem á í tvíhliða viðskiptum við Kína. Það ætti að gefa okkur aukið vægi í að þrýsta á kínversk yfirvöld. En lítið fer fyrir því. Eini maðurinn úr ríkisstjórninni sem hefur gert eitthvað til að ræða um Tíbet við kínversk yfirvöld er Björgvin G. viðskiptaráðherra. Allir hinir hafa verið þöglir sem gröfin. Þó ættu þau að vera meðvituð um ástandið, sendi þeim öllum slóð í myndina "Undercover in Tibet" en ég hef ekki fengið nein svör um viðbrögð eða aðgerðir. 

Þjóðarskútan okkar er ef til vill lek og óstöðug en þó höfum við fjárráð að sækja um rándýrt embætti sem meirihluti þjóðarinnar telur að við eigum ekkert erindi í, þ.e.a.s. öryggisráðið. Þar munum við vera enn ein röddin með nákvæmlega ekkert vægi ef við þá komumst inn í þetta ráð þar sem ríki eins og Kína, USA og Rússland ráða öllu. 

Látum ekki þögnina um Tíbet vera viðvarandi. Í slóðasafninu hér til vinstri er að finna fjölmarga staði þar sem hægt er afla sér upplýsinga. Gefðu þér andartak til að kynna þér hvað er í gangi í Tíbet og gerðu svo eitthvað. Greinakorn eða bréf til ráðamanna virðist harla máttlaust en ef við erum nógu mörg þá er ég sannfærð um að það muni skila árangri.

Með björtum kveðjum,
Birgitta


Óttinn í Lhasa

eftir tíbesku skáldkonuna Woeser

Lhasa kvödd í skyndi. Nú borg óttans.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar er óttinn magnaðri en ef óttanum eftir 1959, 1969 og 1989 væri spyrnt saman.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn býr í andardrætti þínum, í hjartslættinum. Í þögninni, þegar þér langar til að tjá þig en gerir það ekki. Röddin föst í hálsinum.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem síbylja óttans rennur undan rifjum hersveita með vélbyssur. Frá mergð lögreglumanna með byssurnar mundaðar. Frá óteljandi óeinkennisklæddum njósnurum og enn bætir í óttann með risavaxinni vél ríkisvaldsins sem gnæfir yfir þeim, nótt sem nýtan dag. En þú mátt ekki beina myndavél að þeim, þá beinist byssa að þér, þú kannski dreginn inn í skuggann og enginn mun nokkru sinni vita af því.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn í Potala magnast eftir því sem þú ferð lengra í austur, þar sem Tíbetarnir búa. Kvíðvænleg skóhljóð bergmála allsstaðar, en í dagsbirtunni nærðu ekki einu sinni að sjá skugga þeirra. Þeir eru eins og ósýnilegir djöflar á daginn, en hryllilegur óttinn við þá er verstur, þess megnugur að láta þig missa vitið. Ég hef gengið fram hjá þeim, fundið kuldann frá vopnunum í höndum þeirra.

Lhasa kvödd í skyndi. Þar sem óttinn er grandskoðaður öllum stundum með upptökutækjum og myndavélaaugum á hverju götuhorni, húsasundi og skrifstofu, í öllum klaustrum og musterissölum; allar þessar myndavélar, soga allt í sig. Snúast frá ytri heiminum og þvinga sér inn í huga þinn. “Zap zap jé! – Þeir eru að fylgjast með okkur.” — meðal Tíbeta, fornt máltæki með nýrri merkingu, hvíslað hljóðlega manna á milli.

Lhasa kvödd í skyndi. Ég er harmi slegin vegna óttans í Lhasa. Verð að skrifa um það.

23. ágúst 2008
Á leiðinni frá Lhasa


[Ég var í Lhasa frá 17. ágúst til 23. ágúst 2008. Stysta heimsókn mín til þessa og ég var nauðbeygð til að fara… þessi orð eru skrifuð svo ég gleymi ekki hvað gerðist þar. Það er eitt sem ég verð að segja við kínversk yfirvöld: Þú hefur byssur. Ég hef penna.]

Woeser var handtekinn meðan hún var í Lhasa en var svo lánsöm að vera sleppt.

WoeserUm höfundinn:

(Tsering) Woeser fæddist í Lhasa árið 1966. Hún er dóttir yfirhershöfðingja í kínverska frelsishernum. Þegar hún var fjögurra ára flutti fjölskylda hennar til Kardze, Sichuan. Þar stundaði hún bókmenntanám sem allt fór fram á kínversku. Hún vann í tvö ár sem blaðamaður áður en hún flutti til Lhasa árið 1990. Þar hóf hún störf sem ritstjóri fyrir tímaritið Tíbeskar bókmenntir. Fyrsta ljóðabók hennar Xizang zai shang kom út árið 1999. Vegna þess að hróður hennar óx óðum í bókmenntaheimum, var henni gefinn kostur á að hefja nám við Lu Xun stofnunina í Peking.

Árið 2003 kom út eftir hana safn ritgerða þar sem hún var ekkert að skafa utan af hlutunum, safnið fékk heitið; Notes from Tibet, bókin var bönnuð opinberlega vegna “pólitískra rangfærslna”. Í kjölfarið missti hún vinnuna sína sem ritstjóri og þurfti að flytja alfarið til Peking, þar sem hún hélt áfram að skrifa og fékk nokkrar bækur útgefnar í Taívan, ber þar helst að nefna bókina Forbidden Memory, en hún fjallar um kínversku "menningarbyltinguna" í Tíbet og prýða bókina jafnframt ljósmyndir sem faðir hennar tók á meðan á "menningarbyltingin" stóð yfir. Árið 2006, þegar lokað var fyrir bloggin hennar af yfirvöldum, hóf hún að blogga á erlendum netþjóni. Eftir óeirðirnar og mótmælin í mars á þessu ári hafa kínversk stjórnvöld lokað Tíbet sem og lokað fyrir allar upplýsingar um ástandið þar, þar á meðal hefur verið lokað fyrir bloggið hennar, þannig að Kínverjar hafa ekki haft aðgang að skrifum hennar. Bloggið hennar varð fyrir síendurteknum árásum hakkara og varð fyrir vikið ónothæft, en hægt er að finna athugsemdir og skýringar um ástandið í Tíbet á ensku á vefsvæði China Digital Times.

Árið 2007 hlaut Woeser verðlaun frá norska rithöfundasambandinu, verðlaun til heiðurs tjáningarfrelsi. Hún býr í Peking með eiginmanni sínum Wang Lixiong. Hún hefur ekki frelsi til að ferðast til annarra landa.

Þýðingin er byggð á enskri þýðingu Andrew Clark á ljóði Woeser frá kínversku. Hægt er að lesa ljóðið í þýðingu Andrews á Ragged Banner. Hægt er að finna fleiri ljóð eftir hana á þessum vef, en því miður hafa afar fá verka hennar verið þýtt á ensku, nema ljóðabókin Tibet´s True Heart sem Andrew Clark þýddi. Hægt er að finna nokkur ljóð á vefnum Ragged Banner úr þessari mögnuðu bók.

Með björtum kveðjum
Birgitta

 


Taktser Rinpoche látinn

Taktser RinpocheTaktser Rinpoche, elsti bróðir Dalai Lama lést 5. September í Bandaríkjunum. Hann spilaði stórt hlutverk í þeirri pólitísku þróun sem átti sér stað í kjölfar hernámsins á Tíbet og var einn af aðal samningamönnum Tíbeta í árdaga hernámsins.

Þegar hann var þriggja ára var hann viðurkenndur endurfæddur ábóti Kumbum klaustursins og var þegar í áhrifamikilli stöðu áður en bróðir hans fæddist og tók við þeirri stöðu að vera andlegur leiðtogi allrar þjóðarinnar.

Kínversk yfirvöld lofuðu Taktser Rinpoche stöðu ríkistjóra Tíbets ef hann myndi myrða bróður sinn. Taktser Rinpoche fór til Lhasa enn í stað þess að myrða Dalai Lama, sagði hann bróður sínum sannleikann og frá vantrausti sínu á gylliboðum kínverskra yfirvalda og hvatti hann til að flytja sig um set og hafa búsetu við Indversku landamærin. Stuttu síðar flúði Taktser Rinpoche Tíbet.

Taktser RinpocheÞó að Taktser Rinpoche væri dyggur fylgismaður Dalai Lama, þá hafði hann allt aðra skoðun en bróður sinn varðandi milliveg þann sem Dalai Lama ákvað að fylgja. Taktser Rinpoche var alla tíð ákveðinn í því að eina leiðin fyrir Tíbet væri fullt sjálfstæði.

Taktser Rinpoche varði lífi sínu að stórum hluta í að skrifa um Tíbet, bækur sem og akademísk rit, þar á meðal er bókin “Tibet is My Country”, Tíbet er land mitt, en hún var með fyrstu bókum sem fjölluðu um upplifun Tíbeta á þeim umbrotum sem áttu sér stað í landinu. Bókin var jafnframt sú fyrsta til að vera talin til mikilvægra fræðibókum í þessum málaflokki.

Hann starfaði sem prófessor í tíbeskum fræðum í háskólanum í Indiana í Bandaríkjunum og árið 1979 stofnaði hann í Indiana Tíbeska menningarmiðstöð.

Taktser Rinpoche og Dalai LamaAllt til hinstu stundar var Taktser Rinpoche óþreytandi málsvari mikilvægi þess að vernda og bjarga menningu Tíbeta. Hann stóð alltaf vörðinn fyrir því mikilvæga málefni að Tíbetar í Tíbet nytu mannréttinda. Á hverju ári, einnig í ágúst á þessu ári tók hann þátt í svokölluðum “Long walks” og hjólreiðum til að vekja athygli á ástandinu í Tíbet og hvað þjóð hans þarf að ganga í gegnum.

Taktser Rinpoche var 86 ára þegar hann lést. Blessuð sé minning hans.


Föst fundaraðstaða vina Tíbets

Vinum Tíbets hefur boðist kostatilboð um fasta fundaraðstöðu í kjallara Alþjóðahúss. Verið er að standsetja kjallarann svo hann verði hæfur til fundarhalds. Við vorum þarna dágóður hópur fólks frá öllum heimshornum og ýmsum félögum, að taka til og mála á föstudagskvöldið og vonandi tekst okkur að klára þetta næsta föstudag. Aðstaðan verður frábær fyrir svona lítil félög eins og okkar sem oft eru á hálfgerðum hrakhólum þegar verið er að byggja þau upp. Frábært að fá þessa aðstöðu. 

Annars þá er ég ákafur aðdáandi Alþjóðahúss og finnst það starf sem þar er unnið hið mesta þarfaþing, mætti jafnvel líkja því starfi sem hornsteini en margir gera sér ekki grein fyrir hve mikilvægur hann er. Hef fylgst með starfsemi Alþjóðahúss frá upphafi og veit hvað það skiptir miklu fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu okkar. Ég hef svo oft búið erlendis og veit hvað það getur verið snúið að læra á samfélagið í kringum mig ef engin aðstoð er í boði.

Fáni TíbetÁ næstu dögum mun ég setja inn fleiri fastar síður með fræðsluefni er tengist Tíbet, var að setja inn grein um fána Tíbets og hvet ykkur til að lesa hana. Ótrúlega falleg hugsun sem liggur að baki fánans. 

Einn félagi hefur verið öðrum duglegri að þýða greinar og kann ég henni bestu þakkir fyrir það:)

Með björtum kveðjum

Birgitta


« Fyrri síða | Næsta síða »

Félag

Vinir Tíbets
Vinir Tíbets
Markmið félagsins er að efla menningarleg tengls á milli Íslendinga og Tíbeta. Hafið samband: birgitta@this.is
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband